Við andlát

 • Við andlát

  Hér getur þú lesið um það sem þú þarft að gera þegar ástvinur deyr og það fellur í þinn hlut að halda utan um undirbúning vegna útfarar. Oftast fer útför fram um það bil viku eftir andlát en fjölskylduaðstæður geta ráðið því hvort það er fyrr eða síðar.

 • Dánardagur

  Þegar fjölskyldumeðlimur/ástvinur deyr er mikilvægt að tilkynna nánustu ættingjum og vinum andlátið. Ef um skyndilegt fráfall er að ræða, t.d. vegna slyss, þá getur verið ástæða til að fá aðstoð prests við að tilkynna andlátið. Prestur er til halds og trausts í framhaldinu.

 • Kvatt við dánarbeð

  Oft er stutt bænastund, t.d. í sjúkrastofu eða heimahúsi. Aðstandendur geta kallað til prest eða djákna til að halda utan um þá samveru.

 • Samtal við prest

  Aðstandendur hafa samband við prest og það fer vel á að það sé gert sem fyrst, jafnvel þegar andlátið nálgast. Valinn er dagur fyrir kistulagningu og útför og farið yfir aðra þætti sem varða undirbúninginn. Presturinn er bundinn þagnarheiti og hefur þekkingu og reynslu af því að tala við syrgjendur.

 • Útfararþjónusta valin

  Flestir leita til útfararþjónustu þegar dauðsfall verður í fjölskyldunni. Aðstandendur undirbúa svo útförina í samvinnu prests og viðkomandi útfararþjónustu. Á heimasíðu Sýslumannsins á Suðurlandi má finna lista yfir fyrirtæki og einstaklinga sem hafa leyfi til að reka útfararþjónustur.

 • Dánartilkynning

  Venja er að auglýsa andlát og útför í dagblöðum og/eða útvarpi. Stundum er andlát og útför auglýst í sömu auglýsingu. Útför sem fram fer í kyrrþey er oftast auglýst þegar hún er um garð gengin. Útfararstofa og prestur geta aðstoðað við að semja andláts- og útfarartilkynningar.

 • Dánarvottorð

  Læknir skrifar dánarvottorð og aðstandendur fara með það til sýslumanns. Þar fær aðstandandi í hendur vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt og að útför megi fara fram – þetta vottorð er afhent presti. Stundum er farið fram á krufningu og verður nánasti aðstandandi að gefa samþykki sitt fyrir því.

 • Val á sálmum og tónlist

  Organisti og prestur aðstoða við val á sálmum og tónlist sem flytja á við útför og kistulagningu.

 • Æviágrip og mynd fyrir Morgunblaðið

  Morgunblaðið birtir minningargreinar. Ættingjar þurfa að senda inn stutt æviágrip ásamt mynd með góðum fyrirvara.

 • Kista

  Hinn látni einstaklingur er lagður í kistu nokkru eftir andlátið og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða jarðarför eða bálför. Áður er viðkomandi þveginn og færður í líkklæði eða föt sem aðstandendur koma með – oft uppáhaldsföt viðkomandi. Í sumum tilvikum aðstoða aðstandendur við að færa látinn ástvin í föt ef þeir svo kjósa. Aðstandendur velja þá tegund kistu sem þeim líst best á. Þess má geta að til eru umhverfisvænar kistur.

 • Kistuskreyting

  Margir kjósa að láta skreyta kistu með blómum. Stundum er íslenski fáninn lagður yfir kistuna og þá eru engin blóm á henni.

 • Jarðarför eða bálför

  Í mörgum tilvikum er vitað hvort hinn látni einstaklingur vildi hafa jarðarför eða bálför. Eins er mikilvægt að kanna hvort viðkomandi hafi látið eftir sig einhver skilaboð í þá veru eða fyllt út hefti sem heitir: Val mitt við lífslok. Jafnan þykir sjálfsagt að virða vilja hins látna einstaklings að svo miklu leyti sem það er hægt. Nánar um bálför hér.

 • Val á legstað

  Aðstandendur velja legstað og allir eiga rétt á legstað í kirkjugarði óháð skráningu í trúfélag. Útfararstofur hafa milligöngu um þetta sem og svo margt annað er viðkemur útförinni.

 • Kistulagning

  Áður en kistunni er lokað fer fram athöfn þar sem viðstöddum gefst tækifæri til að kveðja látinn ástvin. Börn og aðrir aðstandendur geta sett bréf/myndir ofan í kistu. Prestur leiðir athöfnina og leikur organisti jafnan tónlist. Í lok athafnar er kistunni lokað og geta aðstandendur aðstoðað við það.

 • Blóm

  Kransar og blóm með borðum fylgja kistu í líkbíl og að legstað í kirkjugarði. Aðstandendur geta líka tekið hluta af blómum og haft á borðum þar sem erfisdrykkjan er haldin.

   

 • Erfisdrykkja

  Oft er boðið upp á veitingar eftir útför. Þessi stund veitir fólki styrk og eflir samstöðu í fjölskyldum. Sumir kjósa frekar að verja tíma eftir útför með nánustu aðstandendum.

 • Ekið með kistu

  Að lokinni athöfn í kirkju er farið með kistuna í kirkjugarð. Þegar bálför fer fram er kistu ekið í líkhús. Um bálför sér Bálstofa Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sem er í Fossvogi í Reykjavík.

 • Duftker

  Duftker eru geymd í útfararstofu að lokinni bálför og ákveða aðstandendur hvenær duftker er jarðsett í samráði við útfararstofu og prest. Þá er hægt að óska eftir því að ösku hins látna einstaklings sé dreift og gilda um það ákveðnar reglur og sækja þarf um slíkt til Sýslumannsins á Norðurlandi eystra. Við jarðsetningu duftkers eða dreifingu ösku er yfirleitt sérstök athöfn sem prestur/djákni leiðir í samvinnu við aðstandendur.

 • Styrkur vegna útfarar

  Útfararkostnaður er töluverður og það kemur fyrir að dánarbú hins látna einstaklings eigi ekki fyrir útförinni. Þá er hægt að leita eftir fjárhagslegum stuðningi frá sveitarfélagi og stéttarfélagi að vissum skilyrðum uppfylltum.

 • Sálgæsla

  Þegar útför er yfirstaðin finnur fólk oft fyrir tómleika þar sem ástvinur er ekki lengur til staðar. Þá getur verið gott að hafa samband við prestinn sem annaðist útförina og ræða við hann um líðan sína og sitthvað sem komið hefur upp í hugann eftir andlát ástvinarins. Gott er að hafa stuðning af því að ræða við vini og ættingja um hugsanir sínar, minningar og sameiginlega reynslu. Í mörgum kirkjum eru starfandi sorgarhópar þar sem fólk kemur saman og ræðir sameiginlega reynslu sína.

 • Allra heilagra messa

  Á fyrsta sunnudegi í nóvember er allraheilagramessa (eða allrasálnamessa). Á þeim degi minnist fólk látinna ástvina. Í mörgum kirkjum eru sérstakar athafnir í messum, t.d. eru nöfn sóknarbarna sem látist hafa frá síðustu allraheilagramessu lesin upp í sóknarkirkjunni og/eða fólk kveikir ljós í minningu látinna ástvina. Ljós eru kveikt á leiðum og í sumum fjölskyldum hefur skapast sú venja að fara að leiði náinna ættingja þennan dag.