Börn og útför

Börn og útför

Foreldrar spyrja gjarnan hvort ráðlegt sé að börn komi að dánarbeði eða í kistulagningu og útför. Það er eðlilegt að foreldrar spyrji að slíku og vilji hlífa börnum sínum við sárri reynslu. Dauðinn er aldrei hversdagslegur, honum fylgir alltaf söknuður og er óhjákvæmilegur hluti af lífinu og sorgin gleymir engum. Hún snertir marga strengi í lífi okkar og hreyfir við sterkum tilfinningum. Börnin skynja oft líðan og tilfinningar foreldra sinna með sínum hætti.

Það er dýrmætt að geta leitt börnin sín í gegnum missi og sorg – og jafnframt mikilvægt að finna skapandi leiðir fyrir þau sem þátttakendur svo að þau fái tækifæri til að syrgja á eigin forsendum, t.d. með því að leggja sendibréf, teikningar eða annað í kistuna við kistulagningu.

Óskir barna virtar

Gott er að gefa börnunum tækifæri til að taka þátt í kveðjustundum á borð við kistulagningu eða útför og kveðja í faðmi þeirra sem veita þeim öryggi. Það er mikilvægt að undirbúa börnin vel með því að ræða við þau, segja þeim frá því hvað fram fer svo að þau geri sér grein fyrir aðstæðum, segja þeim hver verða viðstödd og gefa þeim kost á að spyrja. Þannig fá þau upplýsingar sem geta orðið þeim að liði við að ákveða hvort þau vilji taka þátt í stundinni eða ekki. Það er mikilvægt að virða óskir þeirra, t.d. vilja sum börn taka fullan þátt í athöfninni, en önnur kjósa að vera heima. Einnig er boðið upp á samverustundir fyrir börn og foreldra á undan eða á eftir hefðbundinni kistulagningu. Slíkar stundir gefa gott rými fyrir samtal þar sem hægt er að ræða dauðann og þær tilfinningar sem vakna innra með barninu.

Samtal við börn

Það gefur góða raun í sorgarferlinu að foreldrar eða forráðamenn eigi frumkvæði að samtali um dauðann, sorgina og látinn ástvin. Með þeim hætti er gefið til kynna að dauðinn og allt sem honum viðkemur megi ræða og að minningin lifi áfram í huga okkar og hjarta.

Að tilkynna barni andlátið

Þegar tilkynna þarf barni andlát ættingja eða vinar fer best á því að það geri einhver sem barnið treystir. Best er að tala hreint út á einföldu og skýru máli, útskýra það sem gerst hefur án þess að fara út í smáatriði og hvetja barnið til að tjá tilfinningar sínar. Það eru eðlileg viðbrögð barns að gráta og það getur hjálpað til við að losa um tilfinningarnar, sum gráta þó ekki eða gera það síðar. Það getur reynst vel að deila með barninu tilfinningum sínum, en umfram allt að sýna því þolinmæði, vera með því og reyna að viðhalda reglu og öryggi á heimilinu. Með hlýjum faðmi og stuðningi þeirra sem standa barninu næst vinnur það sig í gegnum sorgina, skref fyrir skref.

Lesa næsta kafla: Svona fer útför fram