Útför og tákn

Mold

Mold kemur við sögu í útförinni. Þegar prestur kastar rekunum, þá tekur hann litla skóflu og fyllir hana af mold og lætur hana renna úr skóflunni þrisvar sinnum á kistuna með orðunum: „Af jörðu ertu komin/n – Að jörðu skaltu aftur verða – Af jörðu skaltu aftur upp rísa“ eða „Sáð í dauðlegu, en upp rís ódauðlegt. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika. Sáð er í jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami.“ Þetta heitir moldun og táknar: líf – dauði – líf. Auk þess er þessum orðum ætlað að minna á þau fyrirheit sem okkur voru gefin við skírnina: að Guð er með okkur í lífsins amstri, í dauðanum og í hinu eilífa lífi.

Þetta merkir einnig að við erum fædd jarðneskar manneskjur. Við erum sköpuð af Guði eins og öll jarðnesk sköpun. Það fylgir okkur sem börnum jarðar að snúa aftur til jarðarinnar, moldarinnar. Við erum hluti af hinni líffræðilegu keðju lífsins.

Við erum hins vegar meira en mold samkvæmt kristnum mannskilningi. Við erum líka andlegar verur, því að við erum sköpuð í Guðs mynd. Trúin á upprisu Jesú Krists frá dauðum gefur okkur vonina um að slík upprisa sé okkur einnig búin. Við vitum ekki með hvaða hætti það gerist eða hvenær. En á sama hátt og Jesús lagði líf sitt og dauða í hönd Guðs þá getum við jafnframt gert það.

Oftast er moldað í kirkju, sjaldnar úti í kirkjugarði. Við bálför er ætíð moldað í kirkju.

Kross

Sameiginlegt tákn allra kirkjuathafna er krossmarkið, við skírn, fermingu, hjónavígslu og útför. Tákn krossins er líka hluti af blessuninni sem lýst er í hverri guðsþjónustu:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Krossinn er sterkasta tákn kristinnar trúar. Flestum er kunnugt um að krossinn var í upphafi pyntingartæki. En eftir upprisu Jesú Krists frá dauðum varð krossinn að sigurtákni kristinnar trúar, tákn um að lífið og kærleikurinn sigra dauða og myrkur. Krosstákn er að finna í öllum kirkjum – oftast er hann á líkkistum.

Blóm

Blóm eru tákn um líf og frjósemi. En þau minna líka á forgengileikann. Þau vaxa, blómstra og deyja, eins og mannfólkið.

Blómin geta líka verið tákn um áhyggjuleysi og það að lifa fyrir líðandi stund – í núinu, eins og kallað er. Jesús segir að við eigum að líta til lilja vallarins, því að þær hafi ekki áhyggjur en blómstri eigi að síður. Blóm eru gjarnan á altari kirkjunnar við útför.

Þegar við gefum öðrum blóm tjáum við umhyggju og segjum með því að við séum hluti af lífi hans eða hennar. Við gefum blóm bæði við gleðileg tímamót og á erfiðum stundum. Brúður fær blómvönd við hjónavígslu og við leggjum blóm á leiði fólks. Við jarðarfarir eru blóm í mikilvægu hlutverki. Þau eru notuð til að skreyta kistu, eru í blómavösum á altari og einnig eru kransar gerðir úr lifandi blómum. Það eru ýmist árstíðabundin blóm eða uppáhaldsblóm hins látna einstaklings. Síðan er farið með kransa og blóm að gröfinni. Ef um bálför er að ræða geta aðstandendur lagt blóm og kransa á legstaði annarra ættingja og jafnan er í kirkjugörðum staður þar sem hægt er að leggja blóm og kransa. Við Fossvogskirkju eru tvö listaverk þar sem algengt er að kransar séu lagðir ef ekki er hægt að leggja við legstað hins látna einstaklings eftir bálför.

Líkklútur / andlitsblæja

Líkblæjan yfir andliti hins látna einstaklings minnir á klútinn sem notaður var til að þerra vatnið af höfði einstaklingsins sem fyrrum var borinn til skírnar. Hér áður fyrr var þessi klútur varðveittur sem gersemi væri. Á fermingardegi var hann notaður sem jakkavasaklútur drengja og í sálmabókum stúlkna. Í skírninni er einstaklingurinn með bæn og blessun helgaður Jesú Kristi sem elskar manninn að fyrra bragði og heldur honum í faðmi sínum. Andlitsblæjan minnir á kærleika Guðs sem fylgir okkur í gegnum lífið og inn í eilífðina.

Lesa næsta kafla: Kistulagning