Svona fer útför fram

Útför

Útför er hátíðleg kveðjuathöfn þar sem aðstandendur kveðja ástvin í fjölskyldu sinni eða vinahópi.

Bálför eða jarðarför

Munur á jarðarför og bálför er fyrst og fremst sá að við útför er farið í kirkjugarð og kistan látin síga niður í gröfina. Við bálför er kista ýmist látin standa í kirkju eða borin út og látin standa þar. Hvort heldur sem er gefst viðstöddum kostur á að ganga að kistunni og signa yfir. Að því loknu er ekið með kistuna í líkhús. Bálför fer fram í Bálstofunni í Fossvogi og síðar er gjarnan sérstök athöfn með ástvinum við jarðsetningu duftkers í kirkjugarði. Einnig er hægt að sækja um leyfi til dreifingar ösku yfir öræfi og sjó til sýslumanns. Nánar um bálför hér.

Athöfnin í kirkjunni

Útför hefst á forspili. Gjarnan er leikið á orgel eða annað hljóðfæri nokkru fyrir athöfn, en það hjálpar viðstöddum að kyrra hugann. Bæn er flutt, sálmar sungnir, ritningarlestur/lestrar og lesið guðspjall úr Biblíunni.

Prestur heldur minningarræðu. Ræðan er ýmist flutt frá ræðupúlti eða að prestur stendur við gafl kistunnar. Æviferillinn er rakinn og sagt frá kærum minningum og áhersla lögð á boðskap kristinnar trúar um upprisu mannsins og að þegar lífinu lýkur taki eilífiðin við og látinn ástvinur hvíli í faðmi Guðs.

Í lok athafnar er moldað og gjarnan sungið vers úr sálminum Um dauðans óvissan tíma (Allt eins og blómstrið eina) eftir sr. Hallgrím Pétursson, en stundum er moldað í kirkjugarðinum. Athöfninni lýkur með eftirspili en undir því er kistan borin út úr kirkju.

Við gröfina

Þegar komið er í kirkjugarðinn er kistan tekin út úr líkbílnum og borin að gröfinni. Líkmenn, þau sem bera kistuna, þurfa ekki að vera þau sömu og báru úr kirkju. Hafi ekki verið moldað í kirkju er það gert nú og stundum er sunginn sálmur.

Ýmislegt

Fjöldi sálma

Fjöldi sálma og annarra laga er misjafn – það er ákveðið í samstarfi organista, prests og aðstandenda. Jafnan er gert ráð fyrir 5–6 sálmum auk forspils og eftirspils og er þá einsöngur ekki alltaf talinn með.

Sálmaskrá

Í flestum tilvikum er sálmaskrá prentuð með liðum útfararinnar og sálmatextum (þó sjaldan einsöngslögin sem sungin eru) og oft prýða hana myndir úr lífi hins látna einstaklings. Auk þess eru þar birtar upplýsingar um þau sem koma að athöfninni og í lokin er gjarnan getið um ef gestum er boðið að þiggja veitingar að lokinni athöfn í kirkju.

Auglýsing útfarar

Venja er að auglýsa lát ástvinar ýmist í blöðum og/eða útvarpi. Stundum er andlát og útför auglýst í sömu auglýsingu. Um viku eftir útför er gjarnan sett inn þakkarauglýsing en þó ekki alltaf. Ef útför fer fram í kyrrþey er andlát alla jafna auglýst eftir að útför hefur farið fram og þá birtast líka stundum minningargreinar.

Orðalag þessara auglýsinga er yfirleitt svipað; hlýlegt og látlaust. Prestur eða starfsfólk útfararþjónustu veitir aðstoð við að orða auglýsingar.

Minningargreinar í Morgunblaðinu

Öllum er velkomið að skrifa og senda inn minningargrein til Morgunblaðsins, en þær birtast oftast á útfarardegi. Mikilvægt er að huga með góðum fyrirvara að skilafresti og á heimasíðu Mbl.is eru nánari upplýsingar og leiðbeiningar um lengd þeirra.

Minningargrein er eins og nafnið gefur til kynna minning um látinn ástvin og umfjöllunarefnið er lífsferill viðkomandi, þau spor sem hann/hún skilur eftir sig í samfélagi sínu og þau áhrif sem hann/hún hafði á okkur. Því er gjarnan um að ræða almenna og persónulega frásögn. Það getur reynst erfitt að gefa sér tíma til að skrifa minningargrein um látinn ástvin og vandasamt að hefjast handa enda margt sem leitar á hugann. Hins vegar getur það losað um erfiðar tilfinningar að setja hugsanir sínar á blað og festa kærar minningar í sessi.

Heiðursvörður og félagsfánar

Fulltrúar ýmissa félagasamtaka standa stundum heiðursvörð við útfarir félagsmanna sinna. Heiðursvörður hreyfinga eins og t.d. Frímúrara- og Oddfellowreglnanna stendur við kistu. Í öðrum tilvikum stendur heiðursvörður fyrir utan kirkjudyr, t.d. heiðursvörður björgunarsveita, stéttar- og íþróttafélaga. Við útfarir eru félagsfánar við kór kirkjunnar hafi hinn látni einstaklingur verið í og starfað fyrir viðkomandi félag.

Lesa næsta kafla: Útför og tákn