Sorgarhópar

Sorgarhópar

Fólk sem hefur misst ástvin getur leitað stuðnings í sorgarhópi og deilt þar með öðrum sameiginlegri reynslu. Sorgarhópar eru starfandi í mörgum kirkjum. Í sorgarhópum á sér ekki stað formleg meðferð, heldur samtal. Í hópnum er fólk sem sjálft hefur séð á bak ástvini og getur veitt hvert öðru stuðning. Prestur, djákni eða sjálfboðaliði með þekkingu og reynslu getur stýrt sorgarhópi.

Í sorgarhópum er ekki leitast við að ýta sorginni í burtu eða að þrýsta á viðkomandi að „lífið haldi áfram“ eins og stundum er sagt. Samfélag með öðrum sem hafa misst getur verið hjálplegt til að bera sorgina og horfast í augu við breyttan hversdag.

Starf sorgarhópanna

Þátttaka í sorgarhópum er að mestu leyti endurgjaldslaus og fyrirkomulagið með margvíslegum hætti, t.d. eru oftast í hópunum fimm til tíu einstaklingar sem hittast að jafnaði einu sinni í viku í átta vikur.

Finndu þinn sorgarhóp

Til eru sorgarhópar fyrir börn, ungmenni og fullorðna. Margar kirkjur bjóða upp á stuðningshópa fyrir syrgjendur og það gerir einnig Sorgarmiðstöð. Minningar- og styrktarsjóðurinn Örninn stendur fyrir starfi fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 til 17 ára sem misst hafa foreldri eða annan náinn ástvin. Kannski finnst þér dálítið yfirþyrmandi að tala við hóp fólks um sorg þína. En mundu þá að þú getur alltaf talað við prestinn þinn, pantað samtal við hann. Athugaðu heimasíðu kirkjunnar þinnar.

Lesa næsta kafla: Sálgæsla á netinu