Kistulagning

Kistulagning

Kistulagning er stutt og falleg athöfn þar sem viðstöddum gefst tækifæri til að sjá látinn ástvin í hinsta sinn. Hér áður fyrr var látinn einstaklingur lagður í kistu að viðstöddum ættingjum og dregur athöfnin nafn sitt af því. Í kistulagningu nú á dögum er búið að leggja þann sem látinn er í kistuna og breiða sæng yfir og líkblæju yfir andlit. Oft setja aðstandendur sálmabók eða jafnvel einhvern hlut sem var ástvini þeirra kær.

Kistulagning getur verið annað hvort sérstök athöfn, á öðrum degi en útfarardegi, eða farið fram á sama degi og útför.

Við kistulagningu er iðulega leikin tónlist og stundum sungnir sálmar, en það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Ritningarorð eru lesin og bæn flutt. Prestur lýsir blessun yfir hinum látna einstaklingi. Fólki gefst kostur á að ganga að kistunni og kveðja með fallegum orðum og snertingu, t.d. með því að strjúka enni og andlit eða kyssa. Það er siður að fólk signi yfir við kistulagningu.

Í lok athafnar er kistunni lokað, starfsmaður útfararstofu gerir það oftast og þiggur gjarnan aðstoð aðstandenda.

Signing

Að signa er að gera krossmark og er það eitt helgasta tákn kristinnar trúar og minnir á krossdauða Jesú Krists og von eilífs lífs. Signingin er tákn um kærleikann sem tengir fólk saman órjúfanlegum böndum – kærleikur sem vonar allt, trúir öllu og fellur aldrei úr gildi.