Dauði og upprisa

Dauði og upprisa

Allar manneskjur fæðast og deyja. Það er sameiginlegt hlutskipti okkar allra og ástæða þess að við erum börn jarðar eins og stundum er komist að orði. Gjarnan var sagt hér fyrr á öldum: „Hold er mold, hverju sem það klæðist.“ Þetta blasir við augum okkar á hverjum degi úti í náttúrunni: Af dauða eins vex líf annars fram.

Útför í kirkju tekur mið af þessu sameiginlega hlutskipti mannsins, að fæðast og að deyja. Öll þau sem komin eru í kirkju til að fylgja látnum einstaklingi til grafar þekkja sögu hans í ólíku samhengi. Presturinn getur talað um viðkomandi í ljósi þessa og veit mætavel að orð hans falla í kunnuglegan jarðveg þar sem vinátta og ættartengsl rista misdjúpt. Þannig getur samstarfsfélagi haft aðrar minningar um hinn látna en náinn ættingi.

Saga hvers einstaklings er sett með trúarlegum hætti í stærra samhengi. Það snýst ekki eingöngu um það sem við vitum og teljum okkur skilja, heldur einnig um trú okkar og vonir.

Saga Jesú segir okkur að Guð gerðist maður eins og við: Hann fæddist, tók þátt í lífi fólks, gleði, áhyggjum og sorg. Hann gekk í gegnum þjáningar, var krossfestur og dó. En þar með var þeirri sögu ekki lokið. Jesús reis upp af gröf sinni og gaf okkur þar með von um að hið sama biði okkar: Upprisa til lífs. Við erum ekki aðeins jarðneskar manneskjur af holdi og blóði, heldur hefur okkur verið gefinn andi Guðs. Þess vegna getum við trúað og vonað af svo miklum krafti að það er handan alls skilnings.

Ritningarlesturinn, bænin, minningarorðin og söngurinn við útförina minnir okkur á það fyrirheit sem við tókum á móti í skírninni: Guð er með okkur í lífinu, dauðanum og í hinu eilífa lífi.

Lesa næsta kafla: Börn og útför