Mold
Mold kemur við sögu í útförinni. Þegar prestur kastar rekunum, þá tekur hann litla skóflu og fyllir hana af mold og lætur hana renna úr skóflunni þrisvar sinnum á kistuna með orðunum: „Af jörðu ertu komin/n – Að jörðu skaltu aftur verða – Af jörðu skaltu aftur upp rísa“ eða „Sáð í dauðlegu, en upp rís ódauðlegt. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika. Sáð er í jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami.“ Þetta heitir moldun og táknar: líf – dauði – líf. Auk þess er þessum orðum ætlað að minna á þau fyrirheit sem okkur voru gefin við skírnina: að Guð er með okkur í lífsins amstri, í dauðanum og í hinu eilífa lífi.
Þetta merkir einnig að við erum fædd jarðneskar manneskjur. Við erum sköpuð af Guði eins og öll jarðnesk sköpun. Það fylgir okkur sem börnum jarðar að snúa aftur til jarðarinnar, moldarinnar. Við erum hluti af hinni líffræðilegu keðju lífsins.
Við erum hins vegar meira en mold samkvæmt kristnum mannskilningi. Við erum líka andlegar verur, því að við erum sköpuð í Guðs mynd. Trúin á upprisu Jesú Krists frá dauðum gefur okkur vonina um að slík upprisa sé okkur einnig búin. Við vitum ekki með hvaða hætti það gerist eða hvenær. En á sama hátt og Jesús lagði líf sitt og dauða í hönd Guðs þá getum við jafnframt gert það.
Oftast er moldað í kirkju, sjaldnar úti í kirkjugarði. Við bálför er ætíð moldað í kirkju.