Skip to main content

Útför

Hvað er útför í kirkju?

Útför í kirkju er athöfn þar sem fólk kemur saman, þakkar og kveður látinn ástvin hinsta sinni, hlýðir á kristinn boðskap um upprisuna, von og huggun.

Samtal um undirbúning

Eftir andlát ástvinar ræða aðstandendur við prest um undirbúning fyrir útförina og segja prestinum frá viðkomandi og fara yfir helstu æviatriði. Þær upplýsingar notar presturinn við  samningu minningarorða. Oft er sameiginlegur fundur með presti og organista þar sem organisti ráðleggur og aðstoðar við val á sálmum og tónlist í útförinni.

Sálgæsla og missir

Prestur veitir fólki stuðning og sálgæslu. Hann ræðir við aðstandendur, gefur þeim tækifæri til að tjá tilfinningar sínar um missinn og hinn látna ástvin, liðnar samverustundir, en líka það sem ekki gafst tími til að gera eða njóta saman. Prestar/djáknar veita sálgæslu þótt langt sé liðið frá útför.

Þakklæti og sorg

Í útförinni minnist fólk hins látna einstaklings og þakkar fyrir líf hans og allt það sem það fékk að njóta með honum. Einnig er talað um sorgina sem vaknar við lát ástvinar og lögð áhersla á mikilvægi þess að fólk styðji hvert annað á erfiðum tímum.

Kvatt með virðingu og sóma

Við útförina gefst fólki tækifæri til að kveðja ástvin hinsta sinni og heyra um leið hvað kristinn boðskapur hefur að segja um sorg og söknuð.

Í útförinni moldar prestur – hann setur mold á kistuna og því nefnist það einnig að kasta rekunum. Þá er beðið bænar sem tjáir þakklæti til Guðs fyrir vonina sem kristið fólk hefur fengið vegna upprisu Jesú Krists frá dauðum. Sama bæn er beðin við skírnina. Með þessum hætti er líf manneskjunnar varðað við upphaf þess og lok – þar er þakklæti gjarnan efst á blaði. Eftir að rekunum er kastað er oft sungið vers úr sálminum Allt eins og blómstrið eina:

Ég lifi’ í Jesú nafni,
í Jesú nafni’ eg dey,
þó heilsa’ og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði, ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt,
í Kristí krafti’ eg segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.

Sálmar, bænir og ræða

Sálmar við útför tjá huggun og vonina um upprisu mannsins og eilíft líf. Í bænum enduróma hugsanir okkar í sorginni, söknuðinum og voninni um að hinn látni ástvinur hvíli í faðmi Guðs. Í minningarorðunum er æviskeið hins látna rakið, fjallað um líf hans eða hennar í samfylgd fjölskyldu og vina – sem getur kallað fram minningar sem varðveittar eru í hug og hjarta. Þá er von upprisunnar boðuð og fyrirheit Guðs um að vera með okkur öllum í lífi og dauða.

Lok útfarar

Útför lýkur með því að líkkistan er látin síga niður í gröfina í kirkjugarðinum og aðstandendur signa yfir. Sé um bálför að ræða er duftkerið jarðsett í sérstakan duftreit eð í kistugrafir með leyfi rétthafa leiðis. Einnig er hægt að sækja um leyfi til sýslumanns um dreifingu ösku yfir sjó eða örævi. Við jarðsetningu eða dreifingu ösku fer yfirleitt fram athöfn sem prestur/djákni leiðir.

Kostnaður og styrkir vegna útfarar 

Á heimasíðum fyrirtækja sem veita útfaraþjónusta er að finna verðskrá og verðdæmi um kostnað vegna útfarar, t.d. kista, líkklæði, prentun sálmaskrár, blóm og kransar, laun söngvara o.fl. Þóknun fyrir organleik við útfarir og kistulagningu eru samkvæmt samningi þess efni. Auk þess er greitt vegna prestsþjónustu við kistulagningu og útför og ef um er að ræða athöfn við jarðsetningu duftkers eða kistu. Þær greiðslur eru samkvæmt gjaldskrá um aukaverk presta. Sálgæsla og viðtöl hjá prestum og starfsfólki kirkjunnar eru öllum gjaldfrjáls.

Kostnaður vegna útfarar er töluverður og það kemur fyrir að dánarbú hins látna einstaklings eigi ekki fyrir útförinni. Þá er hægt að leita eftir fjárhagslegum stuðningi frá sveitarfélagi og sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga veita styrki vegna útfararkostnaðar að vissum skilyrðum uppfylltum.

Lesa næsta kafla: Sálmar og tónlist