Sorg og missir
Þegar við missum einhvern sem okkur er nákominn finnum við til sorgar og það getur orðið til einhvers konar innri tómleiki hjá okkur. Allt það sem áður gaf lífinu gildi virðist horfið á braut. Sorgin er samansafn margra tilfinninga sem koma upp við missi og getur birst í margskonar hugsunum, hegðun og einnig líkamlegum viðbrögðum. Mörgum finnst jafnvel erfitt að fara út og hitta annað fólk. Stundum höldum við að öðrum hljóti að finnast að við ættum bara að horfa fram á veginn og halda áfram eins og ekkert sé. Það er líka ekki heiglum hent að taka við öllum þeim góðu ráðum sem að okkur er rétt og ef til vill fáum við það á tilfinninguna að þau séu gefin til þess að sorgin líði hjá.
En sorg er ekki þess eðlis að hún líði hjá og tíminn læknar ekki öll sár. Sorg hvers og eins er einstök og mótast af reynsluheimi og persónu okkar sjálfra ásamt þeim sérstöku tengslum sem við áttum við látinn ástvin. Sum tala um að sorgin komi í bylgjum og að eftir því sem tímanum líði lengist á milli boðafallanna. Sorg er á vissan hátt kærleikur sem við getum ekki alltaf borið ein. Kærleikur og sorg fylgja okkur á lífsins vegi. Sorgin getur breyst eftir því sem tíminn líður og fundið sér annan farveg en hún fylgir okkur hvert fótmál.
Flest náum við að vinna okkur í gegnum sorgina með hjálp góðra vina, ættingja eða stuðningshóps. Ef sorgin er yfirþyrmandi og hefur áhrif á daglegt líf okkar til lengri tíma, þá hefur reynst vel að leita aðstoðar hjá fagaðilum, t.d. presti, sálfræðingi eða öðrum. Prestar veita sálgæslu og sálrænan stuðning, ekki síst þegar skyndileg andlát verða og fylgja ástvinum að lokinni útför eftir samkomulagi. Viðtöl hjá presti eða starfsfólki kirkjunnar stendur öllum til boða og er gjaldfrjáls.