Skip to main content

Sálmar og tónlist

Sálmar og önnur tónlist við útfarir

Sálmar kirkjunnar miðla huggun og von og efla samkennd þeirra sem syngja með og hlusta. Hefð er fyrir kórsöng við útfarir, en almennur söngur kirkjugesta, t.d. í upphafssálmi við vel þekkt lag, veitir samkennd og mildar sorgartilfinningar.

Sálmabókin

Sálmabók kirkjunnar geymir fjársjóð sálma fyrir athafnir og helgihald kirkjunnar. Sérstök skrá í sálmabók vísar á sálma við útfarir þar sem huggun, von og trúartraust er tjáð. Sálmar sem fjalla um upprisu Krists, sálmar sem tengjast lífi hins látna einstaklings, kvöldsálmar og bænasálmar fá dýpri og persónulegri merkingu í útför, og einnig eru ýmis ættjarðarlög sem hafa unnið sér sess á kveðjustundum.

Ýmis dægurlög koma einnig til álita þegar þau þjóna tilgangi athafnarinnar. Jafnan er miðað við að í útför sé lifandi tónlistarflutningur og textar fluttir á íslensku. Alltaf eru þó til frávik frá slíku og fer það eftir aðstæðum.

Val og flutningur tónlistar

Organisti ásamt presti aðstoða við val á sálmum og annarri tónlist sem flytja á við kistulagningu og útför. Ásamt sálmabók eru tónlistarveitur þar sem hægt er að skoða og hlusta á tónlist til að auðvelda valið og hér fyrir neðan eru upptökur á flutningi kóra á algengum sálmum og tónlist við útfarir. Oftast er kórsöngur við útfarir en einnig einsöngur og hljóðfæraleikur ef óskað er. Mikilvægt er að hvetja til þátttöku viðstaddra í söng þar sem því verður við komið.

Við kistulagningu er oftast látlaus tónlist, jafnvel aðeins orgelleikur, eða viðstaddir syngja saman þekktan sálm.

Tónlist á undan útför

Algengt er að leika tónlist á undan athöfn og hún ákveðin í samráði við organista. Gjarnan er valin tónlist sem var hinum látna kær eða tengdist honum með einhverjum hætti.

Lesa næsta kafla: Dauði og upprisa

Hér fyrir neðan getur þú horft á upptökur af sálmum og annari tónlist