Bálför er eins og venjuleg útför nema að kista er ekki borin til grafar.
Á vef Kirkjugarða Reykjavíkur er hægt að fylla út viljayfirlýsingu um bálför. Tilskilinna leyfa er þá aflað og óskin skráð hjá Bálstofunni.
Ef ekki liggur fyrir viljayfirlýsing hins látna einstaklings þurfa aðstandendur að sækja um leyfi fyrir bálför. Útfararþjónustur aðstoða fólk við að afla tilskilinna leyfa, en þar sem því verður ekki viðkomið þurfa aðstandendur að undirrita slíka ósk. Sýslumaður eða fulltrúi hans gefa út vottorð/leyfi að höfðu samráði við lögreglustjóra.
Enginn aukakostnaður er vegna líkbrennslu, en aðstandendur þurfa að greiða fyrir duftker. Ef útför fer fram úti á landi og fyrir liggur leyfi um bálför, þá bera aðstandendur kostnað af flutningi kistu til Bálstofunnar í Fossvogi.
Eftir bálför ákveða aðstandendur hvenær duftker er sett í jörð í samráði við útfararstofu og prest/djákna, en það skal þó jarðað innan árs. Með leyfi frá sýslumanni er heimilt að dreifa ösku yfir sjó og öræfi.
Oft er prestur kvaddur til þegar duftker er jarðsett eða ösku er dreift.
Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði eða löggiltum grafreit.