Útför
Útför er hátíðleg kveðjuathöfn þar sem aðstandendur kveðja ástvin í fjölskyldu sinni eða vinahópi.
Bálför eða jarðarför
Munur á jarðarför og bálför er fyrst og fremst sá að við útför er farið í kirkjugarð og kistan látin síga niður í gröfina. Við bálför er kista ýmist látin standa í kirkju eða borin út og látin standa þar. Hvort heldur sem er gefst viðstöddum kostur á að ganga að kistunni og signa yfir. Að því loknu er ekið með kistuna í líkhús. Bálför fer fram í Bálstofunni í Fossvogi og síðar er gjarnan sérstök athöfn með ástvinum við jarðsetningu duftkers í kirkjugarði. Einnig er hægt að sækja um leyfi til dreifingar ösku yfir öræfi og sjó til sýslumanns. Nánar um bálför hér.
Athöfnin í kirkjunni
Útför hefst á forspili. Gjarnan er leikið á orgel eða annað hljóðfæri nokkru fyrir athöfn, en það hjálpar viðstöddum að kyrra hugann. Bæn er flutt, sálmar sungnir, ritningarlestur/lestrar og lesið guðspjall úr Biblíunni.
Prestur heldur minningarræðu. Ræðan er ýmist flutt frá ræðupúlti eða að prestur stendur við gafl kistunnar. Æviferillinn er rakinn og sagt frá kærum minningum og áhersla lögð á boðskap kristinnar trúar um upprisu mannsins og að þegar lífinu lýkur taki eilífiðin við og látinn ástvinur hvíli í faðmi Guðs.
Í lok athafnar er moldað og gjarnan sungið vers úr sálminum Um dauðans óvissan tíma (Allt eins og blómstrið eina) eftir sr. Hallgrím Pétursson, en stundum er moldað í kirkjugarðinum. Athöfninni lýkur með eftirspili en undir því er kistan borin út úr kirkju.